Netöryggi – Hver er hinu megin?

Hringiðan Blogg

Þriðja og síðasta greinin snýr að mótaðilanum, hvort sjálfsagt sé að treysta honum og hvernig er best farið að því að meta áreiðanleika hans. Fyrri greinar má finna hér:

Þín hegðun.
Tækin sem þú notar.

Er aðilinn traustverður?

Það aukast sífellt vinsældir þess að panta á netinu og nýjar verslanir opna á degi hverjum. Í flestum tilfellum er þar heiðarlegt fólk á bakvið sem er að reyna að búa sér til atvinnu í breyttu umhverfi en þó fylgir þessu einnig töluvert af óheiðarlegum aðilum sem sjá sér leik á borði að safna kreditkortaupplýsingum. Þegar verið er að versla við netverslanir, sérstaklega aðila sem maður hefur ekki reynslu af er gagnlegt og þægilegt að nota Google, skrifa nafnið á síðunni og bæta „scam“ og/eða „review“ fyrir aftan. Ef aðrir hafa lent í svikum af síðunni kemur það oft upp. Þó þetta sé ekki fullkomin lausn getur hún þó gefið góða mynd og tekur stuttan tíma að framkvæma.

Nota HTTPS

Ef aðili tekur við lykilorðum, kreditkortum eða öðrum viðkvæmum upplýsingum, ekki yfir HTTPS, þá er það augljóst rautt flagg um að eitthvað sé ekki í lagi. Ef síðan sendir gilt vottorð sýnir vafrinn þinn lás og segir að síðan sé Secure. Meðfylgjandi er mynd úr Google Chrome sem sýnir hvernig þetta á að líta út.

Aldrei senda kreditkortaupplýsingar eða lykilorð yfir síðu sem notar ekki HTTPS. Sama gildir við tölvupóst eða Facebook skilaboð, ekki senda kreditkort eða lykilorð þannig.

Hinn aðilinn getur verið hakkaður

Jafnvel þó aðilinn sem þú átt í samskiptum við sé traustsins verður þá er ávallt möguleiki að þriðji aðili brjótist inn í kerfin hans og komist yfir þær upplýsingar sem hann hefur um þig. Rennir enn frekari stoðum undir þá ráðlegginu okkar sem við höfum nefnt reglulega í þessum skrifum okkar að vista ekki kreditkort eða aðrar upplýsingar sem hægt er að nota til að valda þér tjóni og greiða með greiðslumiðlun líkt og PayPal þegar kostur er.