Netöryggi – Tækin sem þú notar

Hringiðan Blogg

Í síðustu viku byrjuðum við greinaflokk um netöryggi, fyrsta greinin snerist um hegðun og var aðaláherslan lögð á lykilorð.

Greinilega má lesa hér.

Mikilvægi þess að uppfæra

Það er ekki ofsagt mikilvægi þess að uppfæra hugbúnað og stýrikerfi, það er besta vörnin. Í síðustu viku kom í ljós galli sem gerði fjöldamörg þráðlaus netkerfi óörugg, þá var Microsoft til dæmis þegar búnir að gefa út uppfærslu fyrir Windows stýrikerfi.

Notendur með eldri útgáfu af Windows, til dæmis Windows XP sem eru 16 ár síðan kom út en er enn mjög vinsælt, fengu ekki endilega öryggisuppfærslu en Windows XP hætti að fá uppfærslur árið 2014.Þá eru ótaldar allar aðrar öryggisholur sem hafa verið lagaðar en fer ekki mikið fyrir í fréttunum.

Svo hvort sem þú notar Windows, Linux, Mac OS X, Android eða iOS er ákaflega mikilvægt að vera alltaf að keyra nýjustu útgáfuna og uppfæra þegar á því er kostur.

Mikilvægt að árétta að Apple tölvur eru ekki lausar við öryggisgalla og þær lenda einnig í árásum [1].

Þráðlausu netin sem þú tengist við

Hver elskar ekki frítt, opið WiFi? Öryggislega er það tvísýnt, stundum er það í lagi en stundum ekki. Þú ert að deila netinu með jafnvel mörgum notendum sem geta verið að gera hvað sem er. Ef það er lykilorð að netinu þarf það samt ekki að vera að það sé öruggt, dæmi er um svokallaður maður-í-miðju árásir á þráðlausum netum þar sem óprúttinn aðili þykist vera routerinn sem þú tengist við og áframsendir svo umferðina út á netið[2]. Ef þú sérð svona villu gæti það bent til þess að einhver sé að njósna um þig.

Þegar verið er að nota heita reiti eða opin net er best að reyna að forðast að skrá sig inn á tölvupóst, heimabanka eða að senda lykilorð yfir tenginguna. Dæmi um heita reiti eru kaffihús, flugvellir, verslunum og þess háttar.

Hugbúnaðurinn sem þú setur upp

Smá efasemdir geta verið heilbrigðar og á það einnig við að setja upp hugbúnað á tölvu eða síma, slíku getur stundum fylgt allskonar óværa.

Best getur verið að halda sig við hugbúnað frá þekktum framleiðendum og halda honum uppfærðum líkt og stýrikerfunum, þegar kemur að farsímum virðist víðtekin venja hjá fríum forritum, líkt og tölvuleikjum að senda gögn um þig áfram og þarf að passa sig hvaða heimildir forritinu eru gefnar.

Tölvur sem þú átt ekki

Þó þetta sé ekki mjög algengt er vert að hafa í huga að þegar notaðar eru tölvur sem maður á ekki sjálfur er best að hafa varan á, á það til dæmis við tölvur sem finna má oft í hótelum um víða veröld og þess háttar. Þar stýrir einhver annar tölvunni og getur sá aðili í raun og veru tekið upp allt sem þú gerir, svosem lykilorð og þess háttar. Ef kostur er, mælum við með því að sleppa að nota slíkar tölvur.

[1] Macworld – Do Macs get viruses, and do Macs need antivirus software?
[2] Fraida Fund – Run a Man-in-the-Middle attack on a WiFi hotspot
[3] The Iphone Wiki – Malware for iOS